Site hosted by Angelfire.com: Build your free website today!

Félag áhugamanna um varðveislu á

Kópnesi á Hólmavík.

 Kópnes

Pétur frá Stökkum getur Kópness ekki í Strandamannabók sinni, þar sem hann rekur byggðasögu Hólmavíkur fram til 1940. Vel mætti hugsa sér, að Pétri hafi ekki þótt taka því að nefna kotbýli þetta, sem að miklu leyti var úr torfi og grjóti gert af litlum efnum. Ekki þarf þetta þó að vera ástæðan, enda var Pétur sjálfur af kynslóð Jóns, og trúlega hleypidómalítill í þessum efnum, en honum sást yfir fleira sem komið var fyrir 1940, svo sem Láfahús, Dvöl og fleiri byggingar. Líklega er, að ókunnugleiki Péturs valdi þessu, þótt hann bæri fyrir sig skriflega heimild, raunar ótilgreinda.

Jón Árnason hafði búið á Fitjum í Staðarsveit, en fluttist til Hólmavíkur 1916. Byggði hann sér bæ, þar sem áður hét Litlanes og kallaði "að Kópnesi". Útihús, eins og tíðkast til sveita, byggði hann einnig, einkum fjárhús og hlöður. Ekki minnist ég þess, að hann hefði kýr (eftir 1932) og því síður hesta. Hey bar hann yfirleitt á sjálfum sér, en flutti sumt annað í hjólbörum. Það var Árni Eyþór til marks um efni föður síns, að Ingvar bróðir hans, sem alla tíð var einhleypur og því eitthvað betur stæður, hefði verið skrifaður fyrir byggingunum. Það kann að rekja til þessara bygginga, að Ingvar var síðar kallaður smiður, í Strandamönnum Jóns Guðnasonar. Fyrir smiðsnafninu var þó enginn fótur, að sögn Árna bróðursonar hans, tindaði Ingvar ekki einusinni hrífu sína sjálfur. Þeir bræður Jón tenór og Ingvar bassi, voru annálaðir söngmenn, enda komnir af einum frægasta raddmanni síns tíma, Söngva-Þorkeli Ólafssyni, síðast presti á Hólum í Hjaltadal nálægt aldamótum 1800. Fleiri Strandamenn eru af honum komnir, gegnum Ingigerði Sölvadóttur, konu Jóns Jónssonar frá Miðdalsgröf. Þá skalf Staðarkirkja stundum, þegar þeir bræður sungu þar messur, það hefur Sigríður Björnsdóttir frá Kleppustöðum rifjað upp nýlega. Ekki síður rómar eldra fólk fagran tvísöng þeirra frá eldri tímum, sem aðrir kunnu þar ekki þá og engir síðan.

Jón átti árabát þann, sem Hnallur hét. Hann réri honum til fiskjar fyrrum, einkum yfir fyrir Klasserk, þar sem heita Borgamið, skammt undan Kópnesinu. Þar gafst oft góður afli, sem Jón þurfti ekkert leyfi til að sækja. En í þessum orðum skrifuðum gefa landsfeðurnir út blátt bann við slíku. Aftur á móti er nú í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar guðvelkomið að fiska marhnút af bryggjum, hver sem betur getur, en sá böggull fylgir víst skammrifi, að veiðimaðurinn verður að éta allan sinn afla sjálfur. Fyrir Hólmvíkinga er þessi atvinnuvegur heldur seint á ferðinni, þar sem þeir eru fyrir nokkru búnir að rífa allar sínar marhnútabryggjur. Seinheppnir þar.

Helga Tómasdóttir, kona Jóns, var ekki mjög áberandi dagsdaglega. Allir vissu þó af henni, og margir höfðu talsvert saman við hana að sælda. Skyldu þeir krakkar og unglingar þessa tíma vera margir, sem aldrei voru sendir inná Nes til Helgu, annað hvort með kjötmeti í reykhúsið hennar, eða með rúgbrauðsdeig í brjóstsykurboxi að biðja hana að baka fyrir mömmu ? Það þurfti ekki mikla karlmennsku til að þessara erinda á fund Helgu, hún tók öllum blíðlega, en í meira lagi virtist dularfullt, hvernig hún fór að því að finna á stundinni kjötlæri eins eða rúllupylsur annars, eftir að það hafði hangið uppí rjáfri hjá henni í tvo eða þrjá mánuði. Ekki þurfti hún mikið að gá á merkispjöldin, enda skriftin ólæsileg oftast af sóti.

Tvennt heimilisfólk á Nesinu, utan fjölskyldunnar skal nefnt, má hafa verið fleiri. Löngu fyrir mitt minni var þar til húsa Jón Einarsson, faðir Sumarliða á Gilsstöðum og víðar, en seinna Ingibjörg Björnsdóttir, systir Finnboga í Miðhúsum í Kollafirði. Bæði voru þau á efstu árum og hætt störfum.

Það var hleðslumeistarinn Jón Þorsteinsson frá Gestsstöðum, sem hlóð veggina á Kópnesi og þar hefur ekki steini hallað síðan. Hjalti Einarsson byggði yfir, og hefur verið eitt með fyrstu smiðsverkefnum hans.

Kópnesið virðist ekki hafa hlotið sess í hinu nýja gatnakerfi, en væri Gufubaðstofan talin til húsa, ætti Kópnesið e.t.v. að vera nr. 16 við Kópnesbraut.

Um það var talað, þegar bygging prestsbústaðar var í uppsiglingu, að tvær lóðir kæmu helst til greina, sú sem valin var, og Kópnesið. Um eitt skeið var rætt um að byggja þar elliheimili, en horfið frá því. Til eru þeir, sem telja, að Kópneslóðina eigi að nota undir mikilháttar opinbera byggingu, sem það mundi sóma sér betur en víða annars staðar. Aðrir eru þeirrar skoðunar, að gömlu húsin hans Jóns Árnasonar megi að skaðlausu standa enn um sinn, a.m.k. meðan ekki liggur mikið við.

Nokkur síðustu árin hefur Guðlaugur Traustason haft kindur í húsum afa síns á Nesinu.

Árið 1985 voru viðhorfin þau, að ekki voru fyrirhugaðar neinar byggingar á Nesinu. Nú, 1990, situr við sama.

 

Óli E. Björnsson

Hólmavíkurbók

Gefin út af hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps í tilefni af 100 ára verslunarafmæli Hólmavíkur 1990