Site hosted by Angelfire.com: Build your free website today!

100 ára minning bónda og býlis.

Grænumýrartunga og Þórður Sigurðsson.

  Fyrir réttum 100 árum - 9. október 1852 - var sveinbarn í heiminn borið á Melum í Hrútafirði. Næsta dag var drengurinn skírður og nefndur Þórður. Ekki var hann sonur húsbænda á Melum og því heldur ekki borinn til að erfa það óðal - né neina aðra bólfestu í móðurlandi sínu. Móðir hans var ung stúlka, Helga Þórðardóttir frá Ytri-Knarrartungu á Snæfellsnesi, systir Sigríðar, móður Sigurbjörns rithöfundar Sveinssonar. Faðir Þórðar var Sigurður Sigurðsson, þá í Núpsdalstungu í Miðfirði, bróðursonur hins kunna bónda Péturs í Miðhópi, Péturssonar. Móðir Sigurðar (amma Þórðar) var Helga Tómasdóttir stúdents á Stóru-Ásgeirsá, Tómassonar, en kona Tómasar og móðir Helgu var Ljótunn Jónsdóttir, lögréttumanns á Melum, föðursystir Jóns kammerráðs á Melum. Er og mælt, að Jón kammerráð hafi látið þessarar frændsemi getið, er hann leit Þórð nýfæddan. En ekki varð dvöl Þórðar löng á Melum. Hann fór til föður sins þegar á fyrsta ári og ólst upp með honum í Miðfirði til 10 ára aldurs, en síðan með móður sinni og stjúpa í Hrútafirði. Um fermingaraldur fór hann í vinnumennsku til vandalausra.


Á Melum í Hrútafirði var landrými mikið vestur og norður um fjallið, er skilur Hrútafjörð og Dali, og suður um Holtavörðuheiði og dalinn allann vestan Hrútafjarðarár að suðurmörkum Strandasýslu. Smábýli eða kot hafa verið hér og þar í landi Mela fyrr á öldum og er þeirra getið í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en voru þá öll í eyði. Í lýsingu Mela, sem undirrituð er 23.apríl 1709 segir meðal annars:

"Í heimalandi, þar sem selstaða hefir verið jafnaðarlega brúkuð, sýnist hafa verið gamalt býli, kallað Grænumýrartunga.
Þar eru gamlar tóftir, girðingar og mikið túnstæði. Veit enginn um þess byggingar og eyðilegging. Kynni að sönnu vel að byggjast, en ekki án sýnilegs skaða heimajarðarinnar."


Svo leið 18.öldin öll og fram yfir miðja 19.öld, að enginn réðst í að stofna býli í Grænumýrartungu. Má og vera, að Melabændur hafi ekki gefið þess neinn kost, þótt eftir væri leitað. En sama haustið og Þórður Sigurðsson fæddist á Melum eða um veturinn næsta á eftir, varð það að ráði, að hjón úr Miðfirði, Jóhannes Jónsson og Elín Jónsdóttir "tóku upp býlið Grænumýrartungu í Melalandi" og fluttust þau þangað vorið 1853. Þau voru barnlaus, enda var Elín allmiklu eldri en maður hennar og roskin, er hún giftist. Hún lést 20. Janúar 1857, tæplega sextug. Jóhannes kvæntist nokkru síðar ungri konu, Soffíu Gunnlaugsdóttur frá Óspaksstöðum. Þau bjuggu í Grænumýrartungu til 1860. Soffía lést 1. Júní 1866, 29 ára, en Jóhannes 15.Júní 1869, rúmlega fimmtugur. Þau áttu nokkur börn og var eitt þeirra Jón er fór til Utah og gerðist prestur eða biskup meðal Mormóna.


Næstu búendur í Grænumýrartungu voru hjónin Sigurður Árnason, ættaður af Akranesi og Ragnheiður Egilsdóttir úr Miðfirði. Stóð að því leyti líkt á um þau og hina fyrri búendur, Jóhannes og Elínu, að Ragnheiður var miklu eldri en maður hennar og þau barnlaus. - Fyrsta árið þeirra var heimilsfólk hjá þeim ekki annað en móðir konunnar á áttræðisaldri, og ungur maður, vanheill, en 10 árum síðar eru þar tveir vinnumenn og ein vinnukona. Sigurður og Ragnheiður bjuggu í Grænumýrartungu í 14 ár. Skömmu síðar skildu þau, og fór Sigurður til Vesturheims. Hann lést á Baldur í Manitoba 12. mars 1901, rúmlega sjötugur. - Ragnheiður lést í Miðhúsum í Hrútafirði 18. Janúar 1907, hátt á tíræðisaldri.


Vorið 1874 fluttust að Grænumýrargungu hjónin Árni Einarsson og Guðrún Bjarnadóttir. Þau höfðu áður búið á Kjörseyri í Hrútafirði og víðar þar í sveit, og var Árni þá hreppsstjóri um skeið. Árni var fæddur á Vatnsleysuströnd, en föðurætt hans var úr Svínadal í Húnaþingi og móðurættin úr Saurbæ í Dalasýslu. Guðrún var dóttir Bjarna Hallgrímssonar á Borðeyri, en lengra fram var ætt hennar úr Miðfirði. Þau Árni og Guðrún bjuggu í Grænumýrartungu, meðan þeim var sambúðar auðið. En á tuttugasta búskaparári þeirra þar, 13. nóv. 1893, drukknaði Árni ásamt hesti sínum í síki nálægt Melum í Hrútafirði, hálfsjötugur að aldri. Var frásögn um atvik að þessu slysi birt í ritinu "Heima er best" nú í sumar. Sama rit birti og ( í öðru hefti) mynd af Árna og nokkur æviatriði hans. Börn Árna og Guðrúnar voru Þorleifur steinsmiður í Reykjavík (d. 1934) og Guðrún, er átti Tómas Tómasson á Lambastöðum í Dalasýslu, hún er enn á lífi komin fast að níræðu. Guðrún Bjarnadóttir lést hjá dóttur sinni á Lambastöðum 6.maí 1929 hátt á níræðisaldri.


Fáar sagnir eða engar eru nú geymdar um tvo hina fyrstu búendur í Grænumýrartungu, Jóhannes og Sigurð. Þó munu þeir hafa verið nokkuð kunnir meðal ferðamanna, sem leið áttu yfir Holtavörðuheiði, einkum að vetri til. Grænumýrartunga varð snemma þrautalending þeirra sem mættu kröggum í heiðarferðum, en þröng og léleg húsakynni hafa lengi framan af hamlað því, að þar gæti orðið áningar- og gististaður, nema í viðlögum. Í tíð Árna Einarssonar mun gestakoma hafa aukist og vitað er um ýmsa tigna menn sem tóku hvíld og þáðu hressingu hjá honum. Höfðu þeir gaman af karli, er ræddi ófeiminn við æðri sem lægri og kryddaði tal sitt með orðskviðum og spakmælum, eftir því sem honum þótti við eiga. Innanhúss var vel á haldið, konan atorkusöm og ókvalráð og dóttirin einn mesti skörungur meðal ungra kvenna, hugulsöm og hjartagóð, eins og hún reyndist jafnan síðar vera sem húsmóðir um langa ævi.. Þegar alls er gætt má að telja að gengi Grænumýrartungu hafi heldur vaxið í tíð Árna Einarssonar. Verulegra umbóta var ekki að vænta af hans hendi, enda tíðkuðust þær þá lítt í sveitum landsins og árferði var erfitt á níunda tug aldarinnar.


Þó að telja megi, að Árna Einarssyni hafi farnast allvel í Grænumýrarungu, þá verða samt þáttaskil í aldarsögu þessa býlis við fráfall hans. Nær 42 ár voru þá liðin, síðan er fyrst var vakið máls á því að taka upp býli í Grænumýrartungu. Sú kynslóð, er þá hafði ráðið lögum og lofum, var nú gengin til grafar eða búin að draga sig í hlé. En börnin, sem þá höfðu hvílt í vöggu, voru nú komin fram yfir miðjan manndómsaldur. Og nú kemur hann aftur til sögunnar sveinninn, sem nefndur var í upphafi máls, fæddur á höfuðbólinu Melum , af ætt Melamanna, en þó umkomulítill í bernsku og fram eftir ævi. Það varð að ráði, að Þórður Sigurðsson fengi Grænumýrartungu byggða, og fluttist hann þangað vorið 1894. Hér er eigi rúm til að rekja ævikjör Þórðar, þaðan er frá var horfið og fram að þessum tíma. Myndu þó gefast ærin efni til, ef eftir væri grafist. Það er saga um baráttu og hrakninga, árvekni og þrautseigju einyrkjans, er þreytir fang við margs kyns óáran, háður frumstæðum kjörum. Þórður kvæntist 6.sept. 1874 Sigríði Jónsóttur frá Bálkastöðum, Magnússonar. Fyrstu hjúskaparárin voru þau vinnuhjú og í húsmennsku, en 1878 hófu þau búskap í Gilhaga, túnlausu fjallabýli í Melalandi, nokkru framar við heiðina en Grænumýrartunga. Hafði Davíð Bjarnason, síðar´I Fornahvammi, reist þar nýbýli 1862. Búskap Þórðar í Gilhaga, þar sem hann bjó langst af uns hann fluttist að Grænumýrartungu er að nokkru lýst í "Óðni" 1918 og vísast hér til þess. Í Gilhaga fæddust flest börn þeirra hjóna, en af þeim komust sex synir til fullorðinsaldurs.


Þegar þau Þórður og Sigríður fluttust að Grænumýrartungu, voru ástæður þeirra orðnar hægari en á frumbýlingsárunum. Elsti drenguirnn þeirra er heima voru var 17 ára. Heimilið hafði jafnvel vinnuafl aflögu handa nágrannaheimilum. Lífsbaráttan, sem áður hafði verið fólgin í vörn gegn skorti og viðnámi gegn áföllum breyttist nú í sókn til umbóta og rýmri hags. Reynsla liðinna ára, nógu dýrkeypt, ásamt forsjálni og nærgætni sem þeim hjónum var í blóð borin, var trygging þess að hagsýni yrði gætt jafnt sem áður. Í 14 ár bjuggu þau Þórður og Sigríður í Grænumýrartungu, en þá lést hún, 5.júlí 1908, sextug að aldri. Bjó Þórður enn í 5 ár eftir lát hennar, uns yngsti sonur hans, Gunnar, tók að fullu við búskap í Grænumýrartungu vorið 1913.


Hér verður að segja langa sögu í fáum orðum. Þeir, sem buggu í Grænumýrartungu á undan Þórði, höfðu litlar umbætur gert; um húsakost og ræktun var jörðin enn á mörkum auðnar og byggðar. Þórður hófst þegar handa um að byggja upp húsin, bæta við nýjum, slétta túnið og færa það út og girða. Var svo komið á seinni búskaparárum hans, að Grænumýrartunga mátti teljast meðal fremri býla í byggðarlaginu og hafði þetta áunnist á skemmri tíma en tveimur áratugum. Það sem einkum var rómað um búskap Þórðar, var reglusemi og snyrtimennska. Naut heimilið þess og, að hann var góður smiður; hefir sá eiginleiki orðið arfgengur meðal niðja hans.
Grænumýrartunga er í þjóðbraut. Var því allmikil gestakoma þar í tíð Þórðar og fór vaxandi. Þótti öllum gott að koma til þeirra hjóna; góður beini veittur og fyrirgreiðsla á annan hátt. Húsmóðirin gekk kyrrlát og örugg að störfum, en húsbóndinn glaður og reifur. Var mikilsvert fyrir ferðamenn á fyrri tíð að eiga vísar góðar viðtökur svo nærri erfiðum heiðarvegi.


Þórður Sigurðsson hélt heilsu og kröftum, fjöri og áhuga fram á elliár. Hann lést í Grænumýrartungu 7. Júní 1926. Af sex sonum hans eru nú tveir á lífi: Gunnar bóndi í Grænumýrartungu og Guðmundur, áður lengi á Borðeyri, en nú í Grænumýrartungu. Látnir eru: Sigurður, sem ólst upp með afa sínum og átti heima í Miðfirði, Helgi, síðast á Skagaströnd (d.1952), Björn í Gilhaga (d.1935) og Svanbergur á Fossi (d.1923).


Grænumýrartunga í búskapartíð Þórðar.

Nýir tímar voru að ganga í garð, um þær mundir er Þórður lét af búskap. Hefir Grænumýrartunga tekið miklum stakkaskiptum síðan eins og kunnugt er. Um 1923 keypti Gunnar Þórðarson jörðina af eiganda Mela, og hóf þá skjótt að reisa þar vandað íbúðarhús úr steinsteypu. Önnur hús hafa einnig verið reist og bætt og rafstöð, sem knúin er vatnsafli, komið upp til ljósa, hitunar og suðu. Túnið hefir verið aukið mjög og hagagirðingar reistar.
Gunnar Þórðarson kvæntist 19.okt. 1916, Ingveldi Björnsdóttur frá Fossi Björnssonar. Þau eiga tvær dætur: Sigríði konu Ragnars bónda Guðmundssonar í Grænumýrartungu og Steinunni, konu Benedikts bónda Jóhannessonar á Saurum í Laxárdal. Heimili þeirra Gunnars og Ingveldar var fjölsóttur gististaður, allt þangað til hraðferðir áætlunarbíla komu til sögunnar með bættum samgöngum.


Miklar breytingar hafa orðið í þjóðlífi voru, ytra og innra, um næstliðið aldarskeið. Gleymd eru nú nöfn margra þeirra, sem ruddu brautina. En þegar vér miklumst af þeim framförum sem gerst hafa á landi undanfarna áratugi, mættum vér gjarnan minnast þeirra manna sem fyrr á tíðum unnu hörðum höndum við erfið og frumstæð kjör, en bjuggu um leið stórlega í haginn fyrir niðja sína og síðari kynslóðir yfirleitt. Einn slíkra frumherja var Þórður Sigurðsson í Grænumýrartungu.

9. október 1952
Jón Guðnason